ÉG KEM HINGAÐ SEM GJÖF

Afreksþjálfarinn Þórir Hergeirsson heiðraði nemendur og starfsfólk FSu með nærveru sinni mánudaginn 3. mars síðastliðinn. Tilefnið var nægt með hliðsjón af afrekaskrá hans en hin hliðin á Þóri er sú að hann er gegnheill Selfyssingur og 40 ára FSu stúdent. „Ég kem hingað sem gjöf” orðaði hann af húmor og auðmýkt en skýringin er sú að útskriftarhópur hans ákvað að gefa nemendum og starfsfólki FSu fyrirlestur með Þóri. Fullyrða má að það hafi verið vel þegin gjöf. Fullur salur af áhugasömum nemendum og kennurum og öðrum þeim sem vildu hlusta og nema og hitta kappann.

Þórir rak fróðlegan feril sinn og eftir útskrift frá FSu 1985 stóð honum til boða að fara í íþróttanám að Laugarvatni og í Noregi. Hann ákvað að hleypa heimdraganum og fara í víking í norðurveg. Sagði við móður sína að hann kæmi aftur heim eftir þrjú ár. En hann býr þar enn og hefur náð einstökum árangri í handboltþjálfun. Hóf feril sinn á að koma liðinu Elverum úr 3. deild í toppbaráttu í þeirri efstu og hlaut verðskuldaða athygli í Noregi. Í kjölfarið tók kvennahandboltinn við í gegnum unglingalandslið og svo sem hliðarþjálfari A-landsliðsins þangað til hann varð aðalþjálfari þess og yfirmaður handboltamála kvennamegin.

Viðhorf og aðferðafræði Þóris í þjálfun afreksfólks er mjög athyglisverð því hún byggir ekki á neinu yfirvaldi sem segir leikmanni að gera þetta eða hitt. Heldur snýst hún um innri áhugahvöt hvers leikmanns og hvernig hann ræktar hæfileika sína með þrotlausri þjálfun og þolinmæði. Styrkur, bæting og nýsköpun voru þrjú hugtök sem hann lagði áherslu á. Gullverðlaun eru í þeim skilningi ekki aðalmarkmiðið heldur leiðin að þeim. Ferlið og undirbúningurinn, samheldnin og stöðugleikinn, þolinmæðin og trúin verða kannski að gulli.

Margt í þjálfunarfræðum Þóris rímar sérlega vel við góðar kennsluaðferðir og kennslufræði. Til að mynda lagði hann ríka áherslu á að gera leikmanninn SJÁLFSTÆÐAN í hugsun og ákvarðanatöku. Allir leikmenn þyrftu að vera í bílstjórasætinu þegar sóknin hefst. Sá sem er í aftursætinu bíður aðeins eftir ákvörðunum annarra. Sama gildir um nám. Mikið og margt mætti segja um þennan dásamlega og fróðlega fund þar sem Gaulverjabær FSu fylltist af áhugasömum nemendum með Þóri Hergeirsson á palli. Og niðurlagið í þessari frétt er skýr: Aðalmarkmið kennarans er að vekja ÁHUGA nemandans.

 

jöz.