EINIR KOMA ÞÁ AÐRIR FARA
Við upphaf hvers skólaárs verða alltaf ákveðin mannaskipti í starfsliði FSu. Einir koma - þá aðrir fara eins og orðtakið segir enda er FSu fjölmennur og lifandi vinnustaður með um það bil eitt þúsund nemendur og starfsmenn. Í byrjun þessarar haustannar bættust níu starfsmenn í starfslið skólans: Jóhann Valdimarsson kennari á vélvirkjabraut, Sigrún Ína Ásbergsdóttir kennari á sjúkraliðabraut, Sverrir Árnason íslenskukennari, Karl Sigtryggsson enskukennari, Jónína Ósk Ingólfsdóttir sviðsstjóri á sérnámsbraut, Dagný Magnúsdóttir starfsmaður í mötuneyti sem kenndi á síðustu önn á matvælabraut skólans og stuðningsfulltrúarnir Sigríður Etna Marínósdóttir, Selma Björk Jónsdóttir og Vilhelm Freyr Steindórsson.
Hefð er fyrir því að aðstoðarskólameistari hitti nýráðna kennara á sérstökum fundi á skrifstofu sinni þar sem farið er yfir fyrirkomulag og skipulag kennslunnar í FSu og náðust þrír þeirra á mynd ásamt honum.
jöz.