Ekkert smørrebrød?

Dagana 5.-8. febrúar sat Elísabet Valtýsdóttir námskeið sem haldið var í Kaupmannahöfn fyrir dönskukennara á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.

Flestir námsmenn í þessum þremur löndum sem fara til náms erlendis fara til Danmerkur. Þangað komnir upplifa flestir í upphafi náms erfiðleika  við að skilja talaða og ritaða dönsku. Markmiðið með námskeiðinu var að kynna fyrir hinum löndunum hvernig dönskukennslu er háttað í hverju landi fyrir sig og út frá því stofna til umræðna um hvernig löndin þrjú geti stuðlað að  bættri dönskukunnáttu nemenda og um leið aukið norræna samkennd í þessum þremur löndum.
 
Fyrirlesarar voru frá Færeyjum, Danmörku og Íslandi.

Á Íslandi er byrjað seinna að kenna dönsku en í hinum löndunum og það bitnar óhjákvæmilega á færni íslenskra nemenda. Enn sem komið er hafa Danir ekki farið fram á að Íslendingar taki "Den store Danskprøve" sem allir útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, þurfa að taka. Ef það gerist má búast við að mjög fækki þeim sem þangað fara til náms. Prófið þykir erfitt. Mjög erfitt.

Þess má að lokum geta að hádegis- og kvöldverðir sem námskeiðshópnum var boðið upp á voru ýmist ítalsk-  eða spænskættaðir. Það sást ekki danskt "smørrebrød" á borðum að þessu sinni.