Skemmtileg gjöf frá fyrrum nemanda
Skólanum barst nýlega skemmtileg gjöf frá Svíþjóð. Þar var á ferðinni doktorsritgerð Jóns Þorkels Einarssonar, en Jón Þorkell útskrifaðist frá FSu á haustönn 1995 af eðlisfræði- og náttúrufræðibrautum. Jón Þorkell stundaði nám í læknisfræði við HÍ, lauk sérnámi í lyflækningum við LSH og fór svo utan til framhaldsnáms í Svíþjóð í lyf- og gigtarlækningum.
Ritgerðin fjallar um rannsókn á sjúklingum með liðagigt þar sem skoðuð voru áhrif langvinna sjúkdómshléa á sjúkdóminn. Jón Þorkell varði nú í janúar doktorsverkefnið sitt við Háskólann í Lundi. Hann starfar sem yfirlæknir á gigtarmóttöku háskólasjúkrahússins í Lundi.
Jón Þorkell segir að hann hafi gert sitt fyrsta rannsóknarverkefni hér í FSu: „Mitt fyrsta rannsóknarverkefni vann ég í FSu. Við sendum rannsókn í gegnum umhverfisráðuneytið á Young Europeans' Environmental Research (YEER) ráðstefnuna í Köln 1994. Rannsóknin fjallaði um brennisteinsmengun við háhitasvæði á Íslandi. Sigurður Ragnarsson (stormur) var mentor. Með í hópnum voru Pálmar Ingi Guðnason (efnafræðingur) og Dr. Jón Hallsteinn Hallsson dósent við Landbúnaðarháskólann. Svo fórum við til Kölnar þar sem einhverskonar keppni fór fram.”