Bikarinn í hús eftir langa bið.
Þann 7. desember var seinni einvígisleikur ársins milli Hyskis Höskulds og Tapsárra Flóamanna (briddssveitar starfsmanna FSu) spilaður á heimavelli Hyskisins, Merkurlaut í Flóahreppi. Leikurinn endaði 90 - 66 fyrir Flóamenn. Fyrri leikur ársins fór 94-35 fyrir Flóamenn þannig að briddssveit FSu hefur verið sigursæl þetta ár.
Eftir 62 leiki og 31 ár er staðan í einvígi þessara fornu "fjenda" þannig að Tapsárir Flóamenn hafa skorað 5010 impa en Hyskið 4848. Vinningsstig standa 942 fyrir Flóamenn á móti 896 hjá Hyskinu. Flóamenn hafa unnið 32 leiki en Hyskið 30 en Hyski Höskulds hefur unnið bikarinn 16 sinnum en Tapsárir Flóamenn einungis 15 sinnum. Það þarf ekki að fjölyrða um það að sú tala er sú eina sem Hyskið telur skipta máli.
Leitun er að jafnari keppni milli tveggja liða og langt frá því útkljáð hvort liðið telst betra, enda líklega orðið aukaatriði í dag, keppnin skiptir meira máli en útkoman. Þess er þó að geta að nokkrir úr liði Flóamanna höfðu á orði, morguninn eftir keppni, að sólaruppkoman í Flóanum væri sérstaklega falleg. Ekki heyrðust slíkar yfirlýsingar af vörum Hyskisins. Keppnin að þessu sinni var tileinkuð minningu leiðtoga Tapsárra Flóamanna, Árna Sverri Erlingssyni, sem andaðist í byrjun júlí á þessu ári.
Hér að ofan sést Ingis Ingason koma bikarnum aftur fyrir á skápnum við briddsborðið í FSu.