Enginn vondur

 

Dagana 29. til 31. janúar sóttu íslenskukennararnir Björgvin E. Björgvinsson og Gísli Skúlason fróðlegt námskeið um barnabókmenntir. Námskeiðið bar heitið "På sporet af nordisk börnelitteratur" og var haldið á á vegum NORD-språk á Schæffergården í Gentofte í Danmörku. Enginn var vondur við þá félaga í ferðinni.

Fjórir fræðimenn, Jens Raahauge frá Danmörku, Trine May frá Danmörku, Dagný Kristjánsdóttir frá Íslandi og Nina Goga frá Noregi, fjölluðu meðal annars um bækur sem gerast í ímynduðum heimum (Fiktion) og raunsæjar barnabækur. Einnig var vöngum velt yfir því hvað segja má í barnabókum og hvað ekki. Eru einhver mörk og ef þau eru, hvar liggja þau þá?

Nokkrir helstu nútímahöfundar barna- og unglingabóka sögðu frá  verkum sínum, tilurð þeirra og tilgangi. Þetta voru þau Jon Ewo frá Noregi, Kenneth Bögh Andersen frá Danmörku, Josefine Ottesen frá Danmörku, Per Nilsson frá Svíþjóð og Brynhildur Þórarinsdóttir frá Íslandi. Öll voru erindin áhugaverð og gáfu góða innsýn í þá grósku og skapandi hugsun sem er í útgáfu barna- og unglingabókmennta víða á Norðurlöndum.