Ferð til Gijón á Spáni
Á sunnudag 26. apríl komu fjórir nemendur og tveir kennarar úr vikuferð til Gijón (XiXón) í Asturias-héraði á norður-Spáni. Ferðin var lokahluti í Comenius-verkefni um hnattræna hlýnun (Global Warming I can make a differance) sem staðið hefur á þriðja ár. Að verkefninu stóðu skólar í Austurríki, Frakklandi, Spáni og síðan FSu. Nemendur gistu á heimilum í Gijón. Í ferðina fóru Harpa Hrönn Grétarsdóttir, Gunnar Guðni Harðarson, Sebastían Sævarsson Meyer og Haraldur Ívar Guðmundsson og kennaranir Ólafur Einarsson og Örn Óskarsson.
Að þessu sinni var meginverkefnið að semja 10 umhverfisboðorð og vinna að lokafrágangi verkefna. Kennarar skólanna unnu drög að lokaskýrslu um verkefnið. Nemendur og kennarar unnu þrjá daga að verkefnunum í skólanum í Gijón og tveir dagar voru notaðir í skoðunarferðir um Asturias hérað. Meðal annars var heimsótt kola-rannsóknarstöð í höfuðborg héraðsins, Oviedo. Þar er verið að rannsaka leiðir til að draga úr mengun frá kolaorkuverum. Einnig var farið upp í fjallgarðinn Picos de Europa sem afmarkar suðurmörk Asturias-héraðsins. Mikið var lagt upp úr því að kynna ríkulega og sérstaka matarmenningu héraðsins og fengu gestirnir að kynnast framandi mat og drykkjum. Heimsóknin heppnaðist mjög vel í alla staði og nemendur FSu voru okkur til mikils sóma.