Fimleikastúlkur náðu silfri

Selfoss átti góðan dag  á Bikarmóti FSÍ í hópfimleikum sem fram fór í Ásgarði í Garðabæ laugardaginn 7. mars.  Lið Selfoss HM1, þar sem akademíustúlkur FSu keppa, hampaði silfurverðlaunum á eftir liði Gerplu.

Keppt var í Úrvalsdeild í þremur flokkum, 11-15 ára, 13-18 ára og svo í meistaraflokki 16 ára og eldri.  Í meistaraflokki 16 ára og eldri keppti lið Selfoss HM1.  Þetta var fyrsta alvöru mót vetrarins í þessum aldursflokki þar sem bestu lið landsins kepptu. Í kvennaflokki voru fimm lið mætt til leiks. Hið reynslumikla lið Gerplu fór með sigur af hólmi með samanlögð stig 25,70.  Keppnin var jöfn og spennandi og gátu næstu sæti raðast hvernig sem er. 

Selfossstelpur keyrðu nýjar æfingar og eru búnar að vera að bæta við erfiðleika í stökkum jafnt og þétt.  Þær keyrðu æfingar sínar af miklu öryggi og einbeitingu og uppskáru frábæran dag sem skilaði þeim öðru sætinu með 24,45 stig sem er með hærra skori sem liðið hefur náð. Í þriðja sæti var svo lið Stjörnunnar með 23,75 stig, lið Keflavíkur varð í fjórða með 21,15 stig og Bjarkir úr Hafnarfirði ráku lestina með 20,65 stig.
  
Liðin sem voru í efstu þremur sætunum áttu öll góðan dag svo munurinn gefur nokkuð rétta mynd að styrk liðanna. Lið Selfoss hefur þó hug á að bæta enn frekar við erfiðleikann í stökkum sínum  til að nálgast lið Gerplu frekar, en lið Selfyssinga er ungt og mjög efnilegt. Einkunnir Selfoss voru 8,95 fyrir dans, 7,65 fyrir trampólínstökk og 7,85 fyrir æfingar á dýnu. 

Fyrri umferð íslandsmóts hópfimleika fer fram 18. apríl í Kópavogi og seinni umferð íslandsmótsins mun fara fram á heimavelli Selfoss í íþróttahúsinu Iðu.  Þar munu þessi lið  berjast um tvö laus sæti til að keppa fyrir hönd Íslands á Norðurlandamóti Seniora sem fram fer í Finnlandi haustið 2009.

Næsta  mót liðsins er í íþróttahúsinu Versölum Kópavogi 18.apríl og hvetjum við alla til að koma og horfa á spennandi keppni og ævintýraleg stökk.