FJÖLMENN OG GLÆSILEG ÚTSKRIFT Í FSu

DÚX skólans vorið 2022 Bjarni Már Stefánsson ásamt skólameistara FSu Olgu Lísu Garðarsdóttur
DÚX skólans vorið 2022 Bjarni Már Stefánsson ásamt skólameistara FSu Olgu Lísu Garðarsdóttur

Segja má að veðrið og tónlistin, söngurinn, ræðurnar, gleðin og námsárangur nemenda hafi verið í hæsta gæðaflokki laugardaginn 21. maí þegar skólahaldi FSu var slitið með útskrift kláranna eins og hefð er fyrir að nefna þá sem ljúka þaðan námi. Langþráðri og lifandi útskrift var loks náð eftir nokkrar cóvid annir með fullum sal af fólki. Hvert sæti var skipað og hefur ekki fjölmennari útskrift verið haldin í FSu í fjölda ára.

Alls luku námi 128 nemendur af níu skilgreindum stúdentsbrautum, einn nemandi af grunnmentabrú, ellefu af starfsbraut, þrettán af húsasmíðabraut, tíu af rafvirkjabraut og fimm nemendur af vélvirkjabraut. Fjöldi einstakra viðurkenninga var veittur fjölda nemenda fyrir frábæran árangur í hinum margvíslegu námsgreinum sem of langt mál yrði að telja upp. Sýnir það hins vegar mjög vel hversu fjölbreytt nám er stundað í FSu. Bestum heildarárangri náði Bjarni Már Stefánsson af náttúrufræðibraut og telst hann DÚX skólans. Auk hans fengu sérstaka viðurkenningu fyrir heildarárangur frá Hollvörðum skólans Júlía Lis Svansdóttir og Hildur Tanja Karlsdóttir. Er öllum þessum og öðrum nemendum skólans óskað innilega til hamingju með árangurinn.

En þegar lýsa skal sjálfri dagskránni kom það í hlut nýstúdentsins Hildar Tönju Karlsdóttur að opna hana með glæsilegum fiðluleik á hluta úr verki eftir Bach. Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari stýrði hins vegar athöfninni og hélt hvatningaræðu undir lok samkomunnar, Sigursveinn Sigurðsson aðstoðarskólameistari flutti árlegan annál skólastarfsins ásamt því að veita nemendum einstök verðlaun. Heppnaðist það skipulag afskaplega vel. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttur formaður skólanefndar ávarpi samkomuna og hvatti nemendur til frekari dáða, Örlygur Karlsson formaður Hollvarða skólans og Sigþrúður Harðardóttir í stjórn þeirra ávörpuðu samkomuna og afhentu skólanum að gjöf málverk af húsnæði Odda eftir listamanninn Jón Inga Sigurmundsson sem starfaði lengi við skólann. Að lokum steig fulltrúi nýstúdenta Guðmundur Bjarni Brynjólfsson í pontu og hélt leiftrandi jákvæða og skemmtilega ræðu fyrir hönd hinna nýútskrifuðu.

En kannski var það sem kom útskriftargestum mest á óvart fólgið í innkomu gamalla meðlima skólakórs FSu. En rifja má það upp að starfsemi skólakórs var lengi haldið úti í FSu en lognaðist út af fyrir nokkrum árum. Fyrir gamla hauka skólans var þessi uppákoma tær snilld og lyfti dagskránni í æðra veldi. Þrjú lög voru flutt undir stjórn Jóns Inga Sigurmundssonar: Gaudeamus igitur sem er ævaforn stúdentasöngur og hefð að syngja hann við útskriftir FSu. Þá var flutt nýtt lag eftir Björgvin Þ. Valdimarsson við texta eftir skóla- og heiðursmanninn Hjört Þórarinsson. Að lokum sungu allir Lóan er komin og Jón Ingi Sigurmundsson og Hjörtur Þórarinsson fengu blómvönd frá FSu.

Fleiri ljósmyndir frá athöfninni er að finna facebook síðu FSu.

jöz.