Fjölmiðlafræði á ferð og flugi
Síðasta dag fyrir vorfrí í marsmánuði, skelltu nemendur í fjölmiðlafræði 203 sér í bæjarferð að heimsækja Rúv. Úlfur Grönvold, sviðsmyndahönnuður og starfsmaður Rúv, leiddi hópinn um alla stofnunina og spjallaði við þau um aðstöðuna, sögu Ríkisútvarpsins og pólitík. Nemendur fengu að koma inn í alla króka og kima hússins: útvarps- og sjónvarpsstúdíó, stjórnklefa, smink, verkstæði og fleira. Almenn ánægja var með ferðina, nemendur spurðu mikið og spjölluðu og þótti heimsóknin áhugaverð og skemmtileg.
Þetta er ekki fyrsta vettvangsferð áfangans á þessari önn, því í febrúar fóru sömu krakkar í heilsdagsferð, líka til Reykjavíkur. Það skipti byrjaði hópurinn í Hörpu, þar sem fram fór "Milljarður rís" á vegum UN Women. Þar gátu nemendur tekið þátt í dansi fyrir mannréttindum kvenna, en ekki síður gaf viðburðurinn tækifæri til umræðna og vangavelta um skipulagninga viðburða af þessu tagi til þess að koma málefnum í almenna umræðu og hvernig umfjöllun þeir fá í fjömiðlum. Eftir hádegismat fór hópurinn síðan á málþing í Háskóla Íslands, á vegum Blaðamannafélags Íslands, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Alþjóðamálastofnunar, Meistaranáms í blaða- og fréttamennsku, Miðstöðvar Rannsóknarblaðamennsku, Nýlistasafnsins, DV, Reykjavíkur vikublaðs og Grapevine. Þar komu fram þrír blaðamenn, þeir Fahad Shah frá Kasmír, Jasmin Rexhepi frá Kosovo og Mazen Maaroof frá Líbanon og sögðu frá reynslu sinni sem blaðamenn á svæðum þar sem ríkir ófriður og lýðræðisstoðir eru veikar.
Kennari er Málfríður Garðarsdóttir. Myndina tók Hermann Snorri, en þar má sjá nokkra nemendur máta settið í Kastljósi.