Fjórir hlutu viðurkenningu á degi íslenskrar tungu
Íslenskudeild og bókasafn FSu gengust fyrir samkeppni meðal nemenda skólans í skapandi skrifum þar sem þeir voru hvattir til að skrifa ljóð, örsögu, fullyrðingu eða stutta hugleiðingu um lífið og tilveruna. Skyldu úrslit verða kynnt á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Keppt var í tveimur flokkum, annars vegar þar sem form og efni var frjálst en hins vegar þar sem efnið mátti tengjast nafni, ævi og/eða skáldskap Jónasar Hallgrímssonar. Þátttaka var góð og áætlaði dómnefnd sem í sátu Örlygur Karlsson, Kristín Þórarinsdóttir og Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir, að um eitt hundrað textar hafi borist í keppnina. Niðurstaða hennar var sú að veita fjórum nemendum verðlaun en gera að öðru leyti ekki upp á milli þeirra. Í frjálsa flokknum hlutu viðurkenningu Gunnlaugur Bjarnason fyrir ljóðið Að vona, Iðunn Rúnarsdóttir fyrir ljóðið Námsleiða sem hún orti að limerískum hætti og Vala Hauksdóttir fyrir ónefnt ljóð þar sem dregin er upp tilfinningarík mynd af sambandi ljóðmælanda og skólans. Í Jónasarflokki var ein viðurkenning veitt Magnúsi Ágústi Magnússyni fyrir ljóðið Listin fagra.
Á myndinni sem tekin er við afhendinu viðurkenninga sjást frá vinstri: Kristín Þórarinsdóttir, Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir, Laufey Rún Þorsteinsdóttir sem tók við viðurkenningu fyrir hönd Gunnlaugs Bjarnasonar, Vala Hauksdóttir, Jón Özur Snorrason, Iðunn Rúnarsdóttir og Magnús Ágúst Magnússon.