Fjórtán í sveinsprófi
20.05.2010
Stór hópur tók sveinspróf í húsasmíði í FSu um helgina sem leið, dagana 14. - 16. maí. Fjórtán nemendur glímdu við smíði á snúnum stiga. Prófið er heilmikið verkefni því smíðin tekur 20 klst. og skriflegt próf 2 klst. Allt fór þetta vel fram, mikil vinnugleði og áhugi. Það vekur nokkra athygli að nú er minnkandi aðsókn í iðnnám í FSu. Aðsóknin hefur hrapað mest í trénu en lufsast til að hanga í horfinu, tæplega þó, bæði í málmi og rafmagni, sagði Svanur Ingvarsson kennslustjóri í samtali við blaðamann veffrétta. Þó samdráttur sé um stund í íslenskum iðnaði er ástæðulaust fyrir nemendur að flýja iðnnámið, enda kreppan vonandi skammvinn og iðnmenntun líkleg til að nýtast fólki hvar sem er í veröldinni ef svo ber undir.