Flottir krakkar

Nemendur í uppeldisfræði í FSu fóru nú í fyrsta skipti eftir nokkurra ára hlé í heimsóknir í grunnskóla. Markmiðið er að fá innsýn í skólalífið út frá faglegu sjónarhorni.  Flestir nemendur fóru í Sunnulækjarskóla enda hafði sá skóli falast sérstaklega eftir samstarfi við Ingibjörgu Ó. Sigurðardóttur uppeldisfræðikennara í FSu.  Talsverður hópur fór einnig í Grunnskólann í Þorlákshöfn vegna tengsla tveggja nemenda við skólastjórnendur þar.  Nemendurnir fylgdust með í 2 kennslustundir í yngri bekkjardeildum skólanna og skila síðan skýrslum um þessar heimsóknir. Til marks um hvernig gekk má vitna í bréf Sigfríðar Sigurgeirsdóttur sviðstjóra í Sunnulækjarskóla: „Það er skemmst frá því að segja að þau voru sjálfum sér og skólanum sínum til sóma. Flottir krakkar hér á ferð.“