FRAMMISTAÐA SEM MIKILL SÓMI ER AÐ

Þá er það orðið ljóst að MR sigraði FSu í úrslitum GETTU BETUR í Hljómahöllinni í Keflavík í gærkvöldi með 36 stigum gegn 25. Annað sætið staðreynd. Ekki lítill árangur í þessari flóknu og erfiðu keppni. Fjórir framhaldsskólar lagðir að velli á leiðinni í úrslitin. Borgarholtsskóli, MH, Flensborg og VA.

Framkoma og frammistaða sem mikill sómi er að fyrir skólasamfélagið okkar hér á Suðurlandi. Ásrún, Elín og Heimir og þjálfarinn Stefán eiga svo sannarlega heiðurinn. Gleði og viska, úthald og keppnisskap, bros og húmor, frjálsleg og skapandi framkoma. Og allir stuðningsmennirnir sem fylgdu þeim síðasta spölinn. Nemendur skólans klæddir gula litnum með hrópin sín og skemmtiatriði sem var fjölbreytt danssýning og viðtal við varaformann nemendaráðs innan um áhorfendur. Allt í beinni. Frábær frammistaða að öllu leyti og til mikils sóma eins og einn kennarinn orðaði það. Enn og aftur - Ásrún, Elín, Heimir og Stefán - hjartanlegar hamingjuóskir : - )

jöz.