Fréttir frá málmiðnaðardeild
Nýtt teikniforrit
Nú í vor tók FSu í notkun þrívíddarteikniforritið Solid Works. Pro Nor ehf. er umboðsaðili fyrir Solid Works og náðust samningar, við Ranald Haig framkvæmdastjóra, um að skólinn fengi sérstaka skólaútgáfu af forritinu. Solid Works er notað meðal annars af nokkrum af stærstu fyrirtækjum landsins Marel og Össur við hönnun á ýmsum vélbúnaði sem þau eru að framleiða. Með nýja forritinu opnast ýmsir nýjir möguleikar varðandi hönnun og þar má nefna álagsprófun og flæðisprófun sem hægt er að framkvæma í forritinu. Sjá nánar http://www.youtube.com/watch?v=DgyrGsAdUPE
Nýtt kennslutæki
Velunnari og fyrverandi nemandi Heimir Tómasson kom færandi hendi og gaf skólanum eitt stykki færiband sem mun nýtast vel í kennslu. Færibandið er smíðað hjá Marel þar sem hann vinnur. Í framtíðinni mun færibandið koma sér vel í kennslu bæði hjá rafiðnaðar og vélvirkjadeild. Möguleikarnir eru nánast endalausir og takmarkast þeir aðallega af hugmyndaflugi nemenda og kennara.
Ný verkfæri
Nú á dögunum kom í hús vegleg verkfærakista full af verkfærum sem mun nýtast vel við kennslu í aflvélavirkjun og vélfræði. Kistan er frá Toptul og er Sindri umboðsaðili fyrir þau.
Vélvirkjun í heimabyggð
Stefnt er að því að taka inn nemendur á 5 og 6 önn í vélvirkjun nú í haust, en hingað til hefur þurft að fara til Reykjavíkur til þess að klára vélvirkjunn. Ef nægjanleg þáttaka næst (8 -12) manns þá mun brautin verða keyrð. Framhaldið var kennt við skólann hér áður en fluttist suður í góðærinu. Kostnaðurinn fyrir nemendur hefur hækkað gríðarlega á síðustu árum og þeir sem stunda nám fjarri heimabyggð þurfa að borga æ meira í bensín, húsaleigu og uppihald. Námið er fyrir þá sem lokið hafa grunndeild málmiðnaðar og vilja klára námið til þess að fara í sveinspróf og þar afleiðandi réttindi í sínu fagi. Hægt er að hafa samband við Borgþór Helgason s.6973217 eða Þorvald Guðmundsson s.8933252 til þess að skrá sig í námið.