Frjálsíþróttaakademía FSu
Miðvikudaginn 18. september hóf Frjálsíþróttakademían sitt annað starfsár en á dögunum var samstarfssamningur milli Frjálsíþróttadeilar UMF.Selfoss og Fjölbrautaskóla Suðurlands endurnýjaður. Þetta eru jákvæðar fréttir og vonast báðir aðlilar til þess að Frjálsíþróttaakademían sé komin til að vera. Sautján nemendur eru skráðir til leiks og eru fjórar æfingar á viku á skólatíma, 55 mín. hver en auk þess gefst nemendum einnig kostur á að æfa á kvöldin með Meistarahópi Frjálsíþróttadeildarinnar.
Viðfangsefni Frjálsíþróttaakademíunnar eru af ýmsum toga, svo sem eins og tækniþjálfun frjálsíþróttagreina, styrktarþjálfun, hlaupaþjálfun ásamt teygjum og slökun. Þá verða bóklegar kennslustundir nokkrar á önninni þar sem farið er í skipulagningu þjálfunar, næringarfræði o.fl. Aðstaða fyrir frjálsar er með ágætum á Selfossi allt frá Íþrótta- og þreksal í Iðu upp í fullkomin frjálsíþróttavöll sem verður nýttur eins og kostur er. Nemendur skrifa svo undir svokallaðan nemendasamning í upphafi annar eins og gert er í öðrum akademíum við skólann.
Akademían fer vel af stað og er nemendahópurinn flottur hópur unglinga víðsvegar af Suðurlandi sem eru jákvæðir fyrir að prófa sem flest viðfangsefni. En meginmarkmið akademíunnar er að nemendur prófi sem flestar greinar frjálsíþrótta og séu dugleg að mæta og átti sig á að til þess að bæta árangur sinn í greininni þarf að stunda hana af kappi.
Fyrir hönd Frjálsíþróttadeildar UMF Selfoss
Ólafur Guðmundsson, forsvarsmaður Frjálsíþróttaakademíunnar.