FRÓÐLEG OG HÁSKALEG FERÐ

Þann 4. mars síðastliðinn hélt hópur nemenda í jarðfræði við FSu í ferð á Reykjanesið undir leiðsögn kennara síns Heklu Þallar Stefánsdóttur. Með í för voru sex nemendur frá eyjunni Réunion í Indlandshafi ásamt tveimur kennurum þeirra. Ferðin var vægast sagt mikil upplifun þar sem veðrið var ekki upp á sitt fínasta. Snemma var keyrt fram á snjógplóg sem hafði lent út af vegi og voru FSu-arar ekki lengi að bjarga málunum og koma manninum. Hlúð var að honum uns lögregla mætti á svæðið.

Ferðinni var svo haldið áfram og fyrsta skoðunarstöð var háhitasvæðið Seltún. Þar ríkti hið besta veður og nutu ferðalangar þess að skoða litríka svæðið í skjóli hlíðarinnar. Eftir stutta nestispásu var haldið áfram og förinni heitið upp á Stóru Eldborg sem er gamall gígur með flottri hraunrás sem sést greinilega út frá gígnum. Gengið var af stað í sól en smá vindi en eftir því sem við komumst lengra tók veðrið að versna og loks var orðið svo blint að ákveðið var að snúa við. Þegar við vorum komin hálfa leið til baka tók að létta til og sólin skein yfir okkur. Þetta var svo sannarlega einkennandi fyrir veðurfar á Íslandi þar sem það breytis svo ört og með skömmum fyrirvara. Í því sambandi má vitna til orða kennara við FSu sem fullyrti að á Íslandi væri ekki veður – heldur sýnihorn af veðri.

Nemendur og kennarar frá eyjunni Réunion fengu að minnsta kosti gríðarlega áhugaverða ferð þar sem þau eru alls ekki vön okkar íslenska veðri. FSu nemendur í jarðfræði voru vel búin frá enni til ilja og blésu varla úr nös og skemmtu sér jarðfræðilega í rútunni heim eftir áhugaverða, fróðlega og háskalega ferð.

hþs / jöz