Frönskudeild hlýtur viðurkenningu fyrir góðgerðarstarf
Á dögunum barst Frönskudeild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi viðurkenning SOS Barnaþorpa á Íslandi. Viðurkenninguna hlaut Frönskudeildin sem þakkarvott fyrir rausnarlega peningagjöf sem hún safnaði á svokölluðu Frönskumarathoni en það er skemmtilegur viðburður hjá Frönskudeild Fjölbrautaskólans og fór nú fram í þriðja skiptið. Marathonið er haldið samhliða árlegri Góðgerðardagaviku FSu þar sem nemendur og starfsfólk styrkja afrísk börn í vinaþorpi okkar, Jos í Nígeríu sem er eitt af mörgum barnaþorpum sem SOS styrkir um víða veröld.
Í Frönskumarthoni taka frönskunemendur FSu höndum saman við að safna fyrir börnin í Jos og nota um leið tækifærið til að vekja athygli á frönskunámi við skólann. Það er m.a. gert með því að bjóða gestum og gangandi uppá hraðfrönskukennslu, franska tónlistar- og íþróttakynningu, spurningakeppni, veggspjaldagerð og veitingasölu. Áhugi íslenskra framhaldsskólanema á frönskunámi hefur farið dvínandi á sl. árum. Það er mjög miður því franska er eina tungumálið, utan þess enska sem kennt er í öllum löndum heims og talað í öllum heimsálfum. Skortur á frönskumælandi fólki á Íslandi fer stöðugt vaxandi enda mikil og löng hefð fyrir ýmiss konar samskiptum milli Íslendinga og frönskumælandi þjóða á ýmsum sviðum. Íslenskt samfélag, náttúra, listir og menning vekja mikinn áhuga í Frakklandi og landið er merkilega vinsælt meðal Frakka. Frönskumarathonið heppnaðist vel, nemendur stóðu sig með prýði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og gaman að geta með þessu framtaki sameinað frönskukynningu og söfnun fyrir þurfandi börn í Afríku.