FSu er fyrirmyndarstofnun árið 2024
Sameyki kynnti niðurstöður úr könnuninni "Stofnun ársins 2024" þann 13. febrúar síðastliðinn. Um þrjá verðlaunaflokka er að ræða: Borg & bæ, ríki og sjálfseignarstofnanir & fyrirtæki í almannaþjónustu.
Alls komust 140 ríkisstofnanir á lista en þeim er skipt í þrjá stærðarflokka. Fimm efstu stofnanir hvers flokks fá sæmdartitilinn „fyrirmyndarstofnun“. Könnunin byggir á mati starfsfólks á níu þáttum í innra starfsumhverfi, m.a. starfsanda, jafnrétti og sveigjanleika í starfi. Tilgangurinn með vali á stofnun ársins er að verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs.
FSu varð í þriðja sæti af 46 í flokknum stofnanir með 90 eða fleira starfsfólk. Skólinn hefur verið á topp tíu í könnuninni undanfarin ár. Árið 2021 var skólinn í 6. sæti, 7. sæti árið 2022 og í 10. sæti árið 2023.
Niðurstaða könnunarinnar er viðurkenning á jákvæðu starfsumhverfi og góðum vinnuanda innan FSu. Þessi frábæra niðurstaða er samvinnuverkefni allra starfsmanna.