FSu - Hornsteinn í héraði

Gylfi Þorkelsson, íslenskukennari við FSu, kom fram á 30 ára afmælishátíð skólans og afhenti skólameistara og fleirum eintök af ritgerð sinni,  Fjölbrautaskóli Suðurlands – Hornsteinn í héraði 1981-2011. Ritgerðiner 30 eininga lokaverkefni Gylfa í MPA (Master of Public Administration) við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin var unnin í samstarfi við skólann og kostaði skólinn prentun hennar sem og réttinn til að birta hana í heild eða hluta á heimasíðu sinni.

Ritgerðin segir fyrst  frá rótum fjölbrautaskólans, allt frá því fyrst var farið að ræða sameiginlegan skóla fyrir Árnesinga, Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga um 1880, lögum og námskrám um framhaldsskólastigið frá 1970, og námsvísum fyrir fjölbrautaskóla frá 1978 þegar sá fyrsti kom út. Síðan segir frá aðdragandanum, stofnun skólans og starfi hans til þessa dags.

Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru þær að skólinn standi sig vel. Hann hefur tekið frumkvæði í þróunarstarfi og námsframboði, starfsandi mælist þar betri en almennt í ríkisstofnunum, vísbendingar eru um það að stúdentar frá skólanum ljúki háskólanámi fyrr en nemendur annarra skóla, nemendur skólans gefa honum góða einkunn í könnunum um gæði náms og kennslu og við skólann starfar þéttur kjarni starfsmanna sem ílengist við stofnunina.

Einnig kemur fram að skólinn hafi alla tíð lagt metnað sinn í það að taka við öllum nemendum sem sækja um skólavist og bjóða þeim upp á fjölbreytt nám. Skólinn stendur því með sóma undir kröfu menntamálayfirvalda að vera „framhaldsskóli fyrir alla“.

 

Gylfi flutti að auki fallegt ljóð tileinkað skólanum sem birt er hér með leyfi höfundar.

 

Fjallganga


Hér yfir vakir Ingólfsfjall

með urðarskriður, hamrastall

og lyng og tæra lind.

Á efstu brúnum orðlaus finn,

að á ég hafið, jökulinn

og háan Heklutind.

 

Við hraunið sveigir Ölfusá

með iðuköstum, flóðavá

og góða laxagengd.

Þó brúin tákni mannsins mátt

þá mótar áin stórt og smátt,

vort líf í bráð og lengd.

 

Get Suðurfjórðung faðmað hér,

á flug með hröfnum kominn er

ef tylli mér á tær,

um sögufrægar sýslur þrjár,

um sanda, hveri, jökulár

og byggðarbólin kær.

 

Nú grípur augað glæsihöll,

við gula litinn þekkjum öll,

þar fjöldinn allur fær

að þroska bæði hug og hönd,

að hnýta lífsins vinabönd.

Þar héraðshjartað slær.

 

Gylfi Þorkelsson