FSu komið í úrvalsdeild
FSu-liðið í körfuknattleik sigraði lið Hamars í Hveragerði í oddaleik í úrslitaeinvígi um sæti í Dominos deild karla á næsta keppnistímabili. Að því er fram kemur á heimasíðu liðsins http://fsukarfa.is/ hafði lið FSu góð tök á leiknum nánast allan tímann og sigraði að lokum með 10 stiga mun, 93-103. Stemingin á áhorfendapöllunum var stórkostleg og öll umgjörð leiksins til fyrirmyndar. Körfubolti á Suðurlandi er í miklum vexti sem endurspeglast í leik sem þessum, en lið Hamars, FSu og svo lið Þórs í Þorlákshöfn hafa verið að ná góðum árangri undanfarið, lið Þórs hefur leikið í úrvalsdeildinni nokkur undanfarin ár og nú bætist lið FSu í þann hóp.
Árangur FSu liðsins nú má þakka þrotlausri vinnu og þjálfun undanfarin þrjú ár, þar sem ungir leikmenn hafa fengið að byggja sig upp í gegnum körfuboltaakademíu skólans, en í liðinu eru leikmenn víða að af Suðurlandi, m.a. frá Hvolsvelli, Hveragerði, Flúðum og Þorlákshöfn, auk Selfoss.
Á myndunum má sjá Ara Gylfason skora og hópinn fagna að leik loknum. Myndirnar tók Guðmundur Karl Sigurdórsson.