Fundað um samstarf skólastiga

Nú nýverið hélt Skólastjórafélags Suðurlands fund í Ráðhúskaffi í Þorlákshöfn. Halldór Sigurðsson formaður félagsins setti fundinn en ávörp fluttu Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, Örlygur Karlsson skólameistari FSu og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Mest var fjallað um samstarf grunnskóla og framhaldsskóla og niðurskurð á fjármagni til kennslu grunnskólanema sem stunda nám í einstökum áföngum í framhaldsskóla. Eins og kunnugt er hafa grunnskólanemum boðist ýmsar leiðir til að stunda framhaldsskólanám sem nú eru í nokkru uppnámi.   Skólameistari FSu óskaði eftir meira samstarfi grunn- og framhaldsskóla á fundinum. Ýmislegt virðist þó standa í vegi fyrir slíku samstarfi og kemur þar fleira til en fjárskortur. Fram kom til dæmis hjá ráðherra að sumir framhaldsskólar meta ekki áfanga sem grunnskólanemar taka í (öðrum) framhaldsskóla.