Fundað um stærðfræðikennslu
Miðvikudaginn 22. febrúar var haldinn samráðsfundur í Stærðfræðideild Fsu. Á fundinn komu Anna Helga Jónsdóttir doktorsnemi í tölfræði við Háskóla Íslands ásamt leiðbeinanda sínum Gunnari Stefánssyni prófessor. Doktorsverkefni Önnu Helgu snýr að þróun og prófun á tutor-web, kennslukerfi í stærðfræði og tölfræði.
Anna og Gunnar sögðu fundarmönnum frá því að á hverju ári væru nýnemar við Verkfræði- og Náttúruvísindasvið H.Í. látnir þreyta próf sem kannaði stærðfræðikunnáttu þeirra þegar þeir hæfu nám við sviðið. Niðurstaða þessara prófa hafa verið mikið áhyggjuefni. Til að mynda stóðst einungis um þriðjungur nemenda prófið sl. haust.
Jafnframt upplýstu þau að nemendur frá Fsu sem hófu nám á Verkfræði- og Náttúruvísindasviði sl. haust hefðu staðið sig vel á þessu prófi og hefðu verið meðal þeirra 5 framhaldsskóla sem best gekk.
Í framhaldi af þessu kynntu þau síðan fundarmönnum tutor-web kennslukerfið sem þau hafa verið að nota í H.Í. undanfarin ár. Þau hafa trú á því að þetta kerfi gæti reynst vel til hjálpar bæði nemendum og kennurum við stærðfræðinám og kennslu í framhaldsskólum. Fundarmenn sem á hlýddu gátu auðveldlega tekið undir sjónarmið þeirra. Á myndinni má sjá kennara í stærðfræðideild ásamt fyrirlesurum. Neðri röð frá vinstri: Eyvindur Bjarnason, Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir, Magnús Másson, Hallgrímur Hróðmarsson og Ægir Sigurðsson. Efri röð frá vinstri: Renata Liis, Anna Helga Jónsdóttir, Gunnar Stefánsson, Ingvar Bjarnason og Ólafur Bjarnason.