Fyrsti heimaleikur hjá FSu - karfa
FSu leikur fyrsta heimaleikinn á keppnistímabilinu annað kvöld, þriðjudaginn 22. september kl. 19:15. Eins og allir vita vann FSu-liðið sl. vor úrslitarimmu í 1. deild karla um sæti í úrvalsdeildinni, Dominosdeildinni, og leikur meðal 12 bestu liða landsins á komandi vetri. Nú stendur yfir fyrsta mót keppnistímabilsins, Lengjubikarinn, þar sem FSu er í riðli með Tindastóli, Keflavík, Skallagrími og Breiðabliki. Sl. fimmtudag ferðaðist liðið á Sauðárkrók og atti kappi við heimamenn í Tindastóli. leikurinn var harður og spennandi en norðanmenn höfðu sigur í lokin, mest vegna þess að erlendi leikmaður FSu var ekki kominn með leikheimild og gat ekki tekið þátt, en Tindastólsliðið hins vegar fullmannað. Annað kvöld leikur FSu gegn Keflavík í Lengjubikarnum. Eins og fyrr segir er þetta fyrsti heimaleikurinn í vetur, og spennandi að sjá okkar stráka glíma við stórlið Keflavíkur. FSu-liðið verður vætanlega fullmannað að þessu sinni og strákarnir ákafir að sanna sig. Iða er í nýju sparifötunum og það er ástæða til að hvetja nemendur og starfsmenn skólans, og Sunnlendinga alla, að klæða sig líka uppá og mæta á leikinn til að sjá spennandi og skemmtilegan körfubolta. Muna þetta! Lengjubikar karla: FSu-Keflavík. Iða, þriðjudaginn 22. sept. kl. 19:15.
Uppfært 24. sept. Leikurinn fór 112-81 fyrir FSu.