Glæsileg söngkeppni
Hasta la vista, beibí Þessi setning ásamt fleirum fleygum setningum úr frægum kvikmyndum skreyttu íþróttahúsið Iðu í gær þegar söngkeppni NFSu var haldin. Keppnin var að venju stórglæsileg og umgjörðin öll til fyrirmyndar, en að þessu sinni var yfirskrift keppninnar kvikmyndir.
14 keppendur tóku þátt að þessu sinni, en þeir voru valdir í forvali sem fór fram í október. Söngatriðin voru öll mjög góð og átti dómnefnd úr vöndu að ráða. Sigurvegari kvöldsins var Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, en hún söng lagið You got the love með hljómsveitinni Florence and the machine. Hún verður fulltrúi skólans í aðalkeppninni, söngkeppni framhaldsskólanna, sem haldin verður eftir áramót.
Í öðru sæti varð Fríða Hansen, en hún söng lagið I want it all með Queen og í þriðja sæti varð tríóið Marpunn, sem skipað var þeim systrum Þuríði Marín, Margréti Hörpu og Steinunni Birnu Jónsdætrum, en þær sungu lagið Around us með Jónsa úr Sigurrós. Verðlaun fyrir besta sviðsframkomu fengu þeir Ívar Máni Garðarsson og Albert Rútsson, en þeir fluttu frumsamið lag.
Hljómsveitin Glundroði sá um undirleik.
Á myndunum má sjá Huldu Kristínu flytja sitt atriði og hljómsveitina Glundroða vel klædda að venju.
Myndirnar tóku Hermann Snorri og Guðfinna