Góður árangur í forritunarkeppni
Nemendur Ragnars Brynjólfssonar kennara í FSu náðu góðum árangri í Forritunarkeppni framhaldsskólanna sem haldin var laugardaginn 26. mars í Háskólanum í Reykjavík. Alls voru 30 lið skráð til leiks í keppninni sem fer fram í þremur deildum, Alfa, Beta og Delta. Liðið /* Forritun */, sem var skipað þeim Ragnheiði Guðbrandsdóttur og Sigtryggi Haukssyni úr MH og Garðari Smára Vilhjálmssyni úr FSu, varð í 1. sæti Delta keppninnar. Liðið "The # ones", skipað Bjarti Thorlacius, Arnari Vilhjálmi Arnarssyni úr MH og Sölva Má Benediktssyni úr FSu, varð í 2. sæti Delta keppninnar. Í Delta keppninni voru skráð 21 lið til leiks en líklega voru það eitthvað um 15 lið sem kepptu. Lið skipað þrem strákum úr FSu þeim Hallgrími Egilssyni, Guðmundi Stefánssyni og Jakobi Reyni Valdimarssyni stóð sig ágætlega og gat leyst meira en helming þrautanna þrátt fyrir að allir þrír séu byrjendur í forritun og hafi farið fyrst og fremst til að vera með.