Gott gengi í endurmenntun hjá Garðyrkjuskólanum

Nemendur á námskeiði um áhættumat fóru út að skoða tré
Nemendur á námskeiði um áhættumat fóru út að skoða tré

Við Garðyrkjuskólann á Reykjum er boðið upp á endurmenntunarnámskeið fyrir fagfólk í garðyrkju og skógrækt ásamt námskeiðum fyrir almenning.

Núna á vorönninni hafa verið haldin fjölbreytt námskeið og hefur þátttakan verið framar vonum. Flestir hópar hafa fyllst af áhugasömum nemendum sem farið hafa heim með nýja þekkingu í farteskinu.

Fimmtudaginn 20. mars var námskeið um áhættumat á trjám í þéttbýli. Trjágróður verður sífellt hávaxnari og umfangsmeiri og getur því valdið skaða á umhverfi sínu ef eitthvað kemur uppá. Aaron Shearer sérfræðingur hjá Landi og skógi leiddi námskeiðsgesti í allan sannleika um hvernig best er að meta áhættu af trjágróðri.

Nemendur í Grænni skógum mættu seinnipartinn föstudaginn 21. mars á námskeið um skógarmenningu í umsjá Aðalsteins Sigurgeirssonar sérfræðings hjá Landi og Skógi.

Grænni skógar er námskeiðaröð ætluð skógræktendum og öðrum skógareigendum sem vilja auka við þekkingu sína og árangur í skógrækt. Alls taka þátttakendur í Grænni skógum 15 námskeið á 5 önnum, sem þýðir u.þ.b. 3 helgarnámskeið á önn.

Laugardaginn 22. mars fylltist svo skólinn af áhugasömum nemendum því þá bættust við 2 hópar af námsfúsu fólki.

Til viðbótar við Grænni skóga hópinn var Ingólfur Guðnason, garðyrkjufræðingur og kennari á Reykjum með fjölmennan hóp áhugasamra um uppsetningu og ræktun í óupphituðum gróðurhúsum. Gróðurhús í garðinn virðist vera er ein af vinsælustu stórafmælisgjöfum þessa dagana svo þessi námskeið fyllast alltaf fljótt.

Þriðja námskeiðið þennan dag var hópur sem fræddist um trjá- og runnaklippingar undir leiðsögn Ágústu Erlingsdóttur, skrúðgarðyrkjumeistara. Þegar gróðurinn í garðinum vex fólki yfir höfuð er nauðsynlegt að afla sér þekkingar um hvernig og hvenær óhætt er að klippa svo trjágróðurinn vaxi og dafni í samræmi við óskir ræktandans.

Þetta var frábær dagur og vonandi fóru allir glaðir heim.

Fram undan er annar svona dagur því laugardaginn 5. apríl verða líka haldin 3 námskeið. Í fyrsta lagi endurtekur Ingólfur gróðurhúsanámskeiðið fyrir nýjan hóp sem nú þegar er nær fullskipaður. Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur við Garðyrkjuskólann, ætlar að fræða fólk um fjölærar jurtir, plöntuval og uppröðun í beð. Þetta verður áreiðanlega mjög skemmtilegt og fróðlegt námskeið því Gurrý er óþrjótandi brunnur af fróðleik um plöntur og ræktun þeirra.

Einnig verður haldið námskeið í moltugerð úr heimilisúrgangi. Það verður sífellt algengara að fólk vilji nýta lífrænan úrgang sem til fellur á heimilum. Svala Sigurgeirsdóttir, líffræðingur og stundakennari við Garðyrkjuskólann ætlar að kynna fyrir fólki ýmiskonar aðferðir og hvernig best er að koma sér af stað. Svala hefur stundað moltugerð um árabil og sér núna um fjölbreyttar tilraunir í moltugerð við Garðyrkjuskólann.

Í maí eru svo fram undan þriggja daga námskeið í trjáfellingum og grisjun með keðjusög bæði á Garðyrkjuskólanum og Hólum í Hjaltadal. Einnig verður tveggja daga námskeið í torf og grjóthleðslu á Reykjum í maí.

Allar nánari upplýsingar um námskeiðin má finna hér:

https://www.fsu.is/is/namid/gardyrkjuskolinn-reykjum/gardyrkjuskolinn-namskeid