Flóafár 2020
Koppafeiti eða Greaseliðið stóð uppi sem sigurvegari í hinu árvissa Flóafári sem fór fram á föstudag. Í Flóafári keppa lið undir stjórn nemenda í þrautum sem starfsmenn skólans útbúa. Keppt er um stig fyrir vandaðar þrautalausnir og að klára á góðum tíma. Skólinn allur er undirlagður, hver krókur og kimi notaður og mikill metnaður hjá öllum liðum að vera með flottan heildarsvip, útbúa sitt svæði, halda góðum liðsanda, semja skemmtiatriði og skipuleggja sig vel. Fimm lið tóku þátt að þessu sinni, hvert með sinn einstaka stíl, Kengúrur, Herkúles, Grease, Löggur og Game of thrones. Sem fyrr sagði vann Greaseliðið, en í öðru sæti varð Game of thrones og Löggur í því þriðja. Veittar voru sérstakar viðurkenningar fyrir ákveðin atriði: Game of thrones fengu viðurkenningar fyrir borðalagningu og fyrir hellaðasta herópið og Grease fyrir svakalegasta svæðið, Herkúles fékk viðurkenningu fyrir biluðustu búningana, Kengúrur fengu viðurkenningu fyrir mögnuðustu hópmyndina og viðurkenningu fyrir skemmtilegasta skemmtiatriðið fékk Game of thrones.
Starfsmenn keppa svo innbyrðis um besta búninginn, en það voru þær Gunnþórunn Klara Sveinsdóttir og Íris Þórðardóttir sem fengu viðurkenningu fyrir sína búninga.
Keppnin fór vel fram, allir stóðu sig mjög vel og dagurinn góður endir á vel heppnaðri viku með kæti og gleði að leiðarljósi eins og FSu-ingum er tamt.
Fleiri myndir fá Flóafári má finna hér.