Grunndeild rafiðna fær góða gjöf
Fimmtudaginn 29. September komu góðir gestir í heimsókn. Þar voru á ferðinni aðilar frá Rafiðnaðarsambandi Íslands (RSÍ), samtökum rafverktaka (SART) og félagi rafiðnaðarmanna á Suðurlandi (FRS).
Tilgangur heimsóknarinnar var að færa nemendum í grunndeild rafiðna spjaldtölvur að gjöf. Með gjöfinni geta nemar í rafiðnum betur nýtt sér það mikla úrval af kennsluefni sem er þegar í boði á rafrænu formi og um leið er stuðlað að betri námsárangri og fjölgun nemenda í þessum greinum, en mikil vöntun er á rafiðnaðarmönnum á Íslandi.
„Það er von okkar að með þessum stuðningi sækist nemum í rafiðngreinum námið betur, námsárangur verði betri og nemendum fjölgi en talið er að það vanti um tvö hundruð nýja starfsmenn með rafiðnaðarmenntun á vinnumarkaðinn á ári hverju til að viðhalda þörf markaðarins,“ sagði Jens Pétur Jóhannsson formaður SART við afhendingu gjafarinnar.
Auk Jens Péturs voru viðstaddir Ásbjörn R. Jóhannesson framkvæmdastjóri SART, Björn Ágúst Sigurjónsson starfsmaður RSÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ og Ómar Baldursson formaður FRS.
Skólinn þakkar kærlega fyrir þessar höfðinglegu gjafir.
Á myndinni má sjá Krisján Þórð afhenda Leó Snæ Róbertssyni, nemanda fyrstu tölvuna.