GULUR AÐ UTAN – GRÆNN AÐ INNAN
FSu fékk Grænfánann afhentan öðru sinni nú á dögunum. Grænfánaverkefnið er alþjóðlegt og miðar að því að efla umhverfisvitund nemenda, kennara og starfsmanna skóla. Þetta er umfangsmesta verkefni sinnar tegundar sem rekið er á heimsvísu. Landvernd hefur umsjón með verkefninu á Íslandi og eru nánari upplýsingar um Grænafánaverkefnið er að finna hér: https://menntuntilsjalfbaerni.is/.
Umhverfisnefnd nemenda við FSu hefur starfað frá árinu 2016 og nú seinni árin hafa tveir kennarar haft umsjón með starfinu og verið tengiliðir við Landvernd. Vinna við verkefnið lá að mestu niðri á Covid-tímum en þráðurinn var tekin upp á vorönn 2022. Unnið er út frá ákveðnum þemum hverju sinni og hefur FSu tekið fyrir hnattræna hlýnun og ferðalög ásamt vistheimt. Núverandi þema skólans er náttúrvernd ásamt langtímaverkefninu vistheimt.
Að sögn Ólafs Einarssonar líffræðikennara við FSu og fugladoktors hefur umhverfisnefndin verið að sinna sínu starfi þótt hljóðlega fari. Hún hefur beitt sér fyrir betri flokkun á úrgangi í skólanum, hvatt til ruslatínslu í nágrenni skólans og betri merkingum á flokkunarílátum. Síðustu annir hefur ferðamáti nemenda til og frá skóla verið kannaður og sú rannsókn leitt í ljós að tæplega 70% nemenda koma á sjálfrennireiðum í skólann, þar af eru um 30% sem sameinast í bíla og svo tæplega 40% sem koma einir í bíl. Tiltölulega fáir nemendur nýta sér almenningssamgöngur eða 10%.
Farartæki á bílastæðum skólans hafa verið talin nokkrum sinnum auk þess að rýna í gerð þeirra og þá hefur nefndin reglulega fylgst með magni lífræns úrgangs sem fellur til í mötuneyti skólans.
Umhverfisnefndin stóð fyrir könnun um umhverfisslagorð fyrir skólann, undirtektir voru góðar og bárust margar tillögur. Eftir nokkra yfirlegu valdi nefndin slagorðið: „Gulur að utan – grænn að innan“. Ennfremur hafa verið samin skilaboð um umgengni og umhverfisvernd sem birtast á upplýsingaskjáum skólans og nú síðast var lögð könnun fyrir nemendur um flokkun og friðuð svæði og fleira. Auk þess sem starfsmenn og nemendur skólans hafa tekið þátt í gróðursetningarverkefnum tengt vistheimtarþema skólans.
Ólafur Einarsson segir ennfremur: „Við höfum umsjón með uppgræðslusvæði í Merkurhrauni, við Þjórsá, sunnan Búrfells. Þar hefur þúsundum birkiplantna og reynitrjáa verið plantað á undanförnum árum auk ferða til að bera þar á plönturnar áburð á plönturnar og upprunalegan jarðargróður. Á vegum skólans hefur einnig verið farið í svokallaða Þorláksskóga í Ölfusi og þar hefur verið plantað alaskaaspargræðlingum og birkiplöntum.
Núverandi umhverfisnefnd FSu skipa Axel Sturla Grétarsson, Hanna Carillo Renegado, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir, Patrekur Kári Friðriksson, Sigríður Júlía Wium Hansdóttir og Sofía Auðbjörg Haraldsdóttir. Umsjónarkennarar eru Ágústa Ragnarsdóttir myndlistarkennari og Ólafur Einarsson líffræðikennari.
óei / jöz