HAFSJÓR LISTAFÓLKS

Alþjóðlega listahátíðin og vinnustofan HAFRÓT var haldin þriðja árið í röð á Eyrarbakka nú í september. Yfirskriftin í þetta sinn var OCEANUS HAFSJÓR. Það er Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir fata- og textílhönnuður og listakona, sem ber hitann og þungan af skipulagi og utanumhaldi en á þriðja tug ólíkra listamanna víðsvegar að úr heiminum tóku þátt - auk 15 myndlistarnema úr FSu.

Nemendurnir 15 hafa unnið ötullega að sínum verkum síðastliðnar þrjár vikur en hver nemandi vann hið minnsta þrjár myndir út frá sama mótífi þar sem þemað var HAFIÐ. Myndirnar/verkin þurfti að vinna með ólíkum aðferðum og efnum ásamt því að hafa í huga fjölbreytta stíla og freista þess að ná fram ólíkri stemmingu á milli mynda. Aðstandendur listahátíðarinnar heimsóttu FSu í ferlinu og eins fóru nemendur í ferð á Eyrarbakka, hittu listafólkið að störfum og kynntu sín verk út frá aðferðum, nálgun og innihaldi svo sannkallaður sómi var að.

Uppskeruhátíð listahátíðarinnar var helgina 28. til 29. september víðsvegar um Eyrarbakka. Nemendur sýndu sín verk í Gömlu kartöflugeymslunni og skrifuðu hugleiðingar við verkin sem lýstu innihaldi og aðferð. Vegna Menningarmánaðarins Október í Árborg verður önnur sýningarhelgi 5. til 6. október. Eins og svo oft er sjón sögu ríkari og sannarlega óhætt að mæla með menningarferð á Bakkann. Nánari upplýsingar um opnunartíma og listafólkið má finna á oceanushafsjor.com

ár / jöz