Haldið fast um bikarinn
Laugardaginn 27. september var haldin árleg keppni á milli Hyskis Höskuldar og Tapsárra Flóamanna, bridgesveitar starfsmanna í FSu. Keppnin var sú 54 í röðinni en keppt er tvisvar á ári. Samanlagður árangur þessara tveggja keppna ræður búsetu bikarsins. Eins og sést á myndinni heldur Ingis Ingason fast um bikarinn og mun gripurinn dvelja uppi í hillu yfir bridge-borðinu á kaffistofu FSu næsta árið, líkt og 3 síðustu ár. Leikurinn á laugardaginn fór 77-63 fyrir Tapsára en fyrri leikur ársins fór 69-64, einnig fyrir Tapsára, þannig að heildarmunurinn varð 19 impar. Staðan í keppni liðanna er sú að Hyski Höskuldar hefur unnið bikarinn 13 sinnum en Tapsárir i 14 skipti þannig að munurinn er lítill. Heldur hefur þó hallað á Hyskið síðustu ár sem er þó ekki nema von þar sem Flóamenn hafa verið fimm í síðustu keppnum á meðan Hyskið hefur eingöngu verið með hefðbundinn fjölda spilara eða fjóra.
Á myndinni má sjá frá vinstri: Höskuld Jónsson, Ívar J. Arndal, Daða Garðarsson, Bergþór Njál Kárason, Pétur Guðmundsson, Ingvar Bjarnason, Ingis Ingason, Hannes Stefánsson og Helga Hermannsson. Á myndina vantar sveitaforingja Tapsárra Flóamanna, Árna Erlingsson.