HEILMIKILL KRAFTUR Í VÉLVIRKJADEILD FSu

Á myndinni sjást Gunnar Eiríksson frá Össuri og Borgþór Helgason fagstjóri málmiðngreina í FSu þegar…
Á myndinni sjást Gunnar Eiríksson frá Össuri og Borgþór Helgason fagstjóri málmiðngreina í FSu þegar gjöfin var afhent.

Sveinspróf í VÉLVIRKJUN var haldið í FSu dagana 10. til 12. september. Fimm nemendur þreyttu prófið sem skiptist í fjóra hluta. Fyrst var tekið tveggja tíma skriflegt próf úr öllu námsefni síðustu þriggja ára með fjölbreyttum spurningum þar á meðal um burðarþol stáls og um réttindi og skyldur á vinnustað. Þá var hafist handa við smíðina og unnið í rennibekk og fræsara. Að lokum voru tekin suðupróf, bilanagreiningarpróf á stórri díselvél og framkvæmdar slitmælingar á vélum.

Þá var á dögunum tekin í notkun smiðja eða það sem kallað er AFL og er það í fyrsta skiptið svo vitað sé að nemendur fá að hita stál í afli hér í skólanum. Mæltist þetta vel fyrir að sögn Borgþórs Helgasonar fagstjóra málmiðngreina og verður aflið keyrt í gang á næstu önnum sem kynning á gömlu handbragði. Svo gerðist sá merki atburður á síðustu vorönn að Títaníum var rennt í fyrsta skiptið hér í FSu. Títaníum er mög dýrt efni og fékkst þessi öxulbútur sem gjöf frá stoðtækjafyrirtækinu Össuri. Títaníum er notað við smíði á gerfiliðum í fólk. Hjá Össuri starfa vélvirkjar og rennismiðir við smíði stoðtæki á sambærilegar vélar og eru í FSu. Þá gerðist það líka á vormánuðum að stór díselvél 28L Cummins var gangsett en hún er gjöf frá velunnurum skólans.

Önnur og sérlega glæsileg gjöf barst vélvirkjadeild FSu nú á dögunum frá fyrirtækjunum Össuri og Formúla1. Um er að ræða öxla úr áli, stáli og plasti sem nýtast við kennslu í rennismíði og CNC kennslu. Einnig fengust að gjöf stálhaldari og renniplatti fyrir rennibekkina, fræsitennur miðjuborar og fleira. Að sögn Borgþórs er þessi gjöf „gríðarlegur stuðningur fyrir vélvirkjadeild skólans en um er að ræða öxla og verkfæri í hæsta gæðaflokki. Stálhaldaranir komu frá Steingrími í Formúla 1 ehf og heita Kennametal en Formúla 1 er helsti innflutningsaðili á verkfærum fyrir rennismíði og CNC vinnslu á Íslandi.”

Öflugt samstarf hefur verið milli rafvirkjadeildar FSu, vélvirkjadeildar og Fablab við smíði á prentplötum og undirstöðum fyrir Ardoino smátölvur. Voru notaðir CNC tæki bæði í Fablab og vélvirkjadeild til þess að útbúa þessa hluti. Þetta er í fyrsta skiptið sem CNC tæknin er notuð til þess að búa til prentplötur og leysir hún gamla tækni af hólmi. Þá skal að lokum nefna nýstárlega aðferð við kennslu í burðarþoli sem felst í notkun á þrívíddarteikniforritinu Inventor.

jöz.