Heimsókn bandarískra arkitektanema í Garðyrkjuskólann á Reykjum
19.10.2023
Miðvikudaginn 18. október kom hópur arkitektanema og kennara frá arkitektadeild Yale háskóla í Bandaríkjunum í heimsókn í Garðyrkjuskólann á Reykjum. Hópurinn er á ferð um Ísland þessa dagana að kynna sér arkitektúr á Íslandi og hvernig mannfólkið hefur skapað sér hýbýli og manngert umhverfi á norðurhjara veraldar. Hluti af markmiði ferðarinnar er að skoða hvernig mannfólk bregst við breytingum á umhverfi og loftslagi. Á Reykjum fór Guðríður Helgadóttir með þau um gróðurhús skólans og kynnti fyrir þeim ræktun á grænmeti í gróðurhúsum þar sem jarðhiti er notaður til upphitunar og rafmagn til raflýsingar. Rúsínan í pylsuendanum var svo heimsókn í bananahúsið en þar þótti gestunum mikið til koma að hægt væri að rækta allar þessar hitabeltistegundir á Íslandi.