Heimsókn í Háskólann í Reykjavík
Þriðjudaginn 15. nóvember fóru nemendur í nútíma eðlisfræði í námsferð til Háskóla Reykjavíkur. Tilgangur ferðarinnar var að veita nemendum sem nálgast útskrift innblástur um hvers konar nám gæti komið til greina fyrir þau. Vel var tekið á móti hópnum með ýmis konar kynningar, bæði af nemum og starfsfólki skólans. Hópurinn gekk um skólann og fékk að kynnast ýmislegu sem í boði er í tæknifræðinámi, til að mynda kappakstursbíl sem smíðaður var í verkefni. Nokkrar stöðvar í heilbrigðisverkfræði voru heimsóttar, þar á meðal þrívíddar prentara sem notaður er í samstarfi við Landspítala. Þessi prentari er t.d. notaður til þess að prenta út hauskúpu fyrir lækna sem undirbúa sig undir heilauppskurð. Gaman var þegar sett voru rafskaut á handlegg Magnúsar Þórs Valdimarssonar en með ákveðnu rafstuði var hægt að stýra hreyfingu á hluta handarinnar.