HILDUR KNÚTSDÓTTIR Í HEIMSÓKN

Þann 28. apríl kom rithöfundurinn Hildur Knútsdóttir í heimsókn til nemenda á sérnámsbraut Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fyrsta skáldsaga hennar, Sláttur, kom út árið 2011. Vetrarfrí, sem er skáldsaga af furðusagnaætt ætluð ungmennum, hlaut Fjöruverðlaunin árið 2015 og framhaldsbókin Vetrarhörkur fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2016. Nemendur hafa einmitt lesið skáldsögurnar Vetrarfrí nú á haustönn ‘21 og Vetrarhörkur á vorönn ´22 og fengu tækifæri til að spyrja Hildi spurninga tengdar sögupersónum, söguþræði og fleira skemmtilegu í kringum þessar frábæru bækur. Hildur gaf sér góðan tíma og þökkum við henni kærlega fyrir komuna og þessa frábæru stund með íslenskukennurum og nemendum sérnámsbrautar FSu.