HIN PÓLITÍSKA HLIÐ MENNTAMÁLA

Það er mikilvægt að efla tengsl ráðuneytis og menntastofnana. Heimsóknir ráðherra eru einn liður í því. Þær auka skilning á því fjölþætta starfi sem fram í skólum landsins. Ráðherra barna- og menntamála Ásmundur Einar Daðason heimsótti FSu ásamt aðstoðarfólki og þingmanni mánudaginn 3. október. Heimsóknin hófst klukkan 11 og tilefni hennar var að kynna sér fjölbreytta starfsemi skólans og ekki síst hinn nýja samruna FSu og Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi.

 Undir leiðsögn stjórnenda FSu, Olgu Lísu Garðarsdóttur og Sigursveins Sigurðssonar voru gestirnir leiddir um skólabyggingarnar þrjár: Odda, Iðu og Hamar auk þess sem hádegisverður var snæddur í mötuneyti skólans á meðal nemenda og starfsmanna. Í lok dvalarinnar í húsnæði Odda var haldinn stuttur samræðufundur með kennurum á kaffistofu starfsmanna sem dregur nafn sitt af Bollastöðum í Hraungerðishreppi. Ferðin að Reykjum í Ölfusi þurfti að bíða betri tíma vegna anna ráðherra.

Því má hnýta við þessa fínu heimsókn að aðrir tveir stjórnmálamenn tóku hús á FSu morguninn eftir og héldu stuttan fund með stjórnendum. Það voru þingmenn pírata Björn Leví Gunnarsson og Andrés Ingi Jónsson en Andrés stundaði einmitt nám við FSu til stúdentsprófs fyrir mörgum árum síðan.

jöz.