Höfundur Kattasamsærisins heimsækir FSu
Rithöfundurinn og djákninn Guðmundur Brynjólfsson kom í heimsókn mánudaginn 18. apríl í íslenskuáfanga á 2. þrepi nýrrar námskrár sem kallast barnabókmenntir. Þar er fengist við sögu, frásagnartækni, siðfræði, fagurfræði, málfar og myndskreytingar barnabóka svo nokkuð sé nefnt. Ævintýri, sögur og ljóð fyrir börn frá ólíkum tímum eru lesin og krufin, rædd og skilin. Eitt þessara verka er Kattasamsærið eftir Guðmund sem kom út árið 2012. Guðmundur hitti nemendur á sal skólans sem kallast Gaulverjabær og sagði frá ferli sínum og þeirri iðju að vera rithöfundur sem krefst í senn sjálfsaga og stöðugra hugmynda. Góður rómur var gerður að máli hans og vöknuðu ýmsar spurningar í huga nemenda sem skáldið svaraði greiðlega. Rúmlega fimmtíu nemendur stunda nám í barnabókmenntum í tveimur hópum og er það álit margra að fjölga mætti heimsóknum þeirra sem fást við skapandi starf í skólann okkar.