Hönnun og umhverfi
Miðvikudaginn 25.nóvember sl. var haldin svonefnd „GRÆN LOKAHÁTÍГ í sal Odda, aðalbyggingar FSu á Selfossi. Nemendur og kennarar í bóklegu greininni umhverfisfræði og verklegu greininni fatahönnun tóku sig saman og kynntu verkefni annarinnar, um leið og boðið var upp á þverfaglegar lausnir tengdar umhverfi og hönnun. Margir góðir gestir komu í heimsókn, innanhússfólk og fólk utan úr bæ, enda „græna veislan“ vel auglýst meðal nemenda, foreldra og samfélags á viðeigandi stöðum á Facebook, í samvinnu við nemendaráð FSu. Stemningin, umhverfisvakningin, almennur áhugi og samfélagsleg gleði varð til þess að strax eru á teikniborðinu hugmyndir um áframhaldandi, þverfaglega gjörninga – í þeirri von og ósk að sunnlenskt samfélag í heild sinni taki eftir og njóti áhrifa og úthrifa unga fólksins sem undirbýr það að taka við keflinu af þeim sem eldri eru. Umsjón með hátíðinni höfðu kennararnir Aníta Ólöf Jónsdóttir og Helga Jóhannesdóttir. Fleiri myndir má finna á fésbókarsíðu skólans.