Hrossahagar og landlæsi
31.08.2017
Nemendur á Hestabraut drifu sig í vettvangsferð í morgun, fimmtudaginn 31. ágúst, til að skoða hrossabeit. Stefnan var tekin niður á Stokkseyrarveg þar sem auðvelt aðgengi er að nokkrum hrossahólfum og létu nemendur smá súldarveður ekki aftra sér, enda þar á ferð hraustleikafólk upp til hópa. Tilgangur ferðarinnar var að skoða og fá æfingu í að meta haglendi fyrir hross, en landlæsi er einn þáttur í áföngunum „Fóður og heilsa“. Markmiðið með þessari kennslu og æfingum er að nemendur læri að nýta land og viðhalda auðlindinni „hrossahagar“ á eins sjálfbæran hátt og kostur er. Nemendur læra að þekkja þau merki um hvort land þoli ákveðið beitarálag og hvort landið sé að hnigna eða í bata.