Hugmyndakassi@fsu.is
11.11.2014
Skólafundur FSu var haldinn 1. október sl. og skipulagður með það markmið að efla umræðu og leggja drög að stefnu skólans á næstu árum og áratugum. Fundurinn var með svokölluðu þjóðfunda-sniði, setið var við 9 manna hringborð þar sem borðstjóri leiddi umræður um nokkrar fyrirfram ákveðnar spurningar. Til fundar mættu kennarar, stór hópur nemenda, foreldrar og ýmsir aðilar úr samfélaginu.
Nú hefur verið farið yfir allar tillögur fundarins og unnið að því að koma stórum hluta þeirra í framkvæmd. Við úrvinnslu gagnanna hefur það vakið athygli hve samhljóma umræður voru við flest borðanna, sömu þemu koma upp aftur og aftur. Hugmyndir um nýsköpun, fjölbreyttari kennsluhætti, aukið námsval, metnað, ábyrgð, aukin og bætt samskipti innan skóla og eflingu tengsla skólans við nærsamfélagið eru þannig rauðir þræðir í skýrslu fundarins.
Hópur kennara sem vinnur að innleiðingu nýrrar námskrár við skólann mun vinna áfram með þær niðurstöður fundarins sem snúa að skipulagi náms og námsframboðs, en hugmyndirnar voru margar og fjölbreyttar. Öll getum við t.d. unnið áfram með þær sem snúa að bættum samskiptum, ábyrgð og auknum metnaði.
Og samtalinu er ekki lokið. Komið hefur verið upp hugmyndakassa, þannig að enn fleiri geti komið á framfæri tillögum um enn betri skóla. Hvað finnst þér skipta máli? Hægt er að senda inn tillögur rafrænt á hugmyndakassi@fsu.is. Jafnframt verður settur upp hugmyndakassi í miðrými skólans.
Á myndunum má sjá dæmi um tillögur af fundinum og orðasafn.