HVAÐ ER HINSEGINLEIKI?
Jafnréttisnefnd FSu, nemendaráð og starfsfólk FSu stóðu saman að glæsilegri HINSEGIN viku í FSu vikuna 24. til 28. febrúar. Skólinn uppfærði fánann sinn í gegnum Hinsegin kaupfélagið og var honum flaggað upp í himin auk þess sem veggir, stofur, gangar, mötuneyti og starfsfólk var skreytt með öllum regnbogans litum.
Kynjafræðinemendur settu upp sýningu á veggspjöldum um hinseginleika og stóð hún yfir alla vikuna. Myndlistardeildin með kennarana Ágústu og Önnu Kristínu í forsvari sá um að útfæra regnbogastiga sem lá frá þriðju hæð skólans niður á þá fyrstu. Mötuneyti skólans var með allskonar útfærslur í matargerð og buðu nemendum meðal annars upp á litríkan mat með litríku krapi.
Miðvikudaginn 26. febrúar flutti Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir erindið TRANS FÓLK Í NÚTÍMA SAMFÉLAGI - erindi sem fjallar um trans fólk, þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir í okkar samfélagi og hvernig við getum verið öflugri samherjar þeirra. Auk fyrirlestrarins fóru fram samtöl við nemendur og starfsfólk – fyrir og eftir hann.
Skemmtilegt er frá því að segja að sveitarfélagið Árborg bauð upp á kynningar um viðfangsefnið fyrir nemendur. Fyrst var haldinn kynning um hinseginleikann á miðvikudeginum eftir skólatíma og svo flutti starfsfólk Pakkhússins erindi um hinsegin starfsemi sem þau halda utan um.
Það er jafnréttisnefnd skólans sem heldur utan HINSEGIN viku FSu en hana skipa Eva Dögg Jafetsdóttir jafnréttisfulltrúi og formaður, Agnes Ósk Snorradóttr náms- og starfsráðgjafi og Eyrún Björg Magnúsdóttir félagsvísindakennara. Nefndin þakkar sérlega vel fyrir jákvæð viðbrögð úr nærsamfélaginu.
edj / jöz