Í LEIT AÐ GLÖTUÐUM TÍMA

Samstarf milli kennslugreina fer vaxandi í FSu. Enda er frekar hvatt til þess en latt í gildandi námskrá. Af því tilefni og öðru efndu sögukennarinn Lárus Ágúst Bragason og íslenskukennarinn Jón Özur Snorrason til samstarfs. Báðir kenna þeir á þessari önn hvorn sinn áfangann í Íslandssögu og bókmenntasögu 17. til 19. aldar og ákváðu að fara í dagstúr mánudaginn 17. apríl síðastliðinn með nemendur og sækja HÚSIÐ á Eyrarbakka heim.

Heiti ferðarinnar var um leið tilvísun í skáldævisögu franska rithöfundarins Marcel Proust (1871-1922) – Í leit að glötuðum tíma – þar sem sögumanni birtast sýnir í einskonar eftirsjá eftir liðinni tíð. HÚSIÐ er verðmætt dæmi slíkrar sögu og minninga og inniheldur andrúmsloft og gildismat liðinnar tíðar. Mikilvægt er að draga nemendur inn í slík hús sem tilheyra horfnum tíma til fróðleiks og þroska.

Gestgjafar HÚSSINS voru þær Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir safnvörður og Ásthildur Magnúsdóttir vefari. Auk þess að lýsa innviðum og daglegu lífi HÚSSINS leiddu þær okkur inn í húsið Kirkjubæ´sem lýsir híbýlum alþýðufólks í byrjun 20. aldar. Þá fræddi Ásthildur okkur um einstök gæði hinnar íslensku ullar og hversu stóru hlutverki sauðkindin gegndi í því að halda lífi í formæðrum og forfeðrum okkar um aldir.

Tíminn á Eyrarbakka var svo sannarlega ekki glataður. Hann var nýttur til fróðleiks og skemmtunar og til að finna gömlum tíma nýjan stað í hugskoti okkar og þroska.

jöz