Íris Arna sigraði söngkeppni FSu
Íris Arna Elvarsdóttir sigraði söngkeppni FSu sem hadlin var í gær í Iðu.. Söngkeppnin er einn af hápunktum viðburða hjá FSu og er vel sótt af nemendum og bæjarbúum. Afar vel er staðið að keppninni og öll umgjörð til fyrirmyndar. Þema ársins í ár var Sveitin og tók traktor á móti gestum fyrir utan Iðu og þegar inn kom voru heybaggar, reiðtygi og fleira sem skapaði skemmtilega sveitastemmingu. Formaður söngkeppnisnefndar er Gígja Marín Þorsteinsdóttir sem einnig er ritari NFSU.
Á sviðinu var hljómsveitin Kúrekar Norðursins sem sá um að spila undir hjá keppendum. Hljómsveitin er skipuð nemendum skólans; Valgarður Uni Arnarsson (gítar), Gylfi Þór Ósvaldsson (gítar), Jakob Unnar Sigurðarson (bassi), Elías Örn Jónsson (hljómborð) og Þröstur Ægir Þorsteinsson (trommur).
Keppendur stóðu sig mjög vel og sungu sig inn í hjörtu viðstaddra. Greinilegt var að mikil var lögð í undirbúning, æfingar og fleira og geta keppendur verið afar stoltir af sínu framlagi. Mörg skemmtiatriði voru á dagskránni og fóru þar fremstir í flokki kynnar kvöldsins Gunnar og Felix sem héldu stuðinu uppi með söng og skemmtun. Einnig birtust á sviðinu trúður, dans frá World Class, uppistand, brandarar og margt fleira. Frábær kvöldskemmtun í skemmtilegu umhverfi með fullt af fallegum söng, skemmtiatriðum og fjöri.
Úrslit urðu þessi:
1. Sæti Íris Arna Elvarsdóttir
2. Sæti Aron Birkir Guðmundsson
3. Sæti Helga Sonja Matthíasdóttir
Frumlegasta atriðið: Lilja Rós Júlíusdóttir og Þrúður Sóley Guðnadóttir (lag Another day, frumsamið)