Ítalíuferð kórs FSu: ferðasaga
Frábær Ítalíuferð hjá kór Fsu dagana 11. til 16 apríl.
Kór Fsu hélt í ævintýralega ferð til Bolzano í suður Týrol á norður Ítaliu. Þessi ferð var í alla staði algjörlega frábær og velheppnuð. Í kór skólans eru núna 46 meðlimir af þeim héldu 37 utan, en auk þeirra voru Kristjana Hrund Bárðardóttir kennari og Gunnþórunn Klara Sveinsdóttir (Tóta) umsjónarmaður kórsins og Örlygur Atli Guðmundsson (Ölli) kórstjóri og Árni Björnsson bassaleikari með í för.
11 apríl. Laugardagur. Haldið var af stað frá bílaplani FSu klukkan 03:00 aðfaranótt laugardags, mikil eftirvænting og tilhlökkun í hópnum og gleði ríkjandi þrátt fyrir lítinn nætursvefn. Lent í Munchen í Þýskalandi þar sem Elli fararstjóri beið okkar glaðbeittur ásamt rútubílstjóra. Nú var brunað alla leið niður til Ítalíu, keyrt í gegnum Austurríki og hið fræga Brennerskarð í Ölpunum, smá stopp í austurrískri vegasjoppu og nartað í þarlenda skyndibita. Vorum komin um kvöldmatarleyti á Hótel Citta í Bolzano. Þar tók á móti okkur hin einkar glaðlega Jóna Fanney fararstjóri. Síðan var snæddur kvöldverður og rölt lítillega um bæinn.
12 apríl. Sunnudagur. Dagurinn tekinn snemma, gengið um götur Bolzano í fylgd Jónu og Ella og allar helstu byggingar og garðar skoðaðir sem og aðrir markverðir staðir. Eftir hádegi var farið á Ötzi safnið, en þar getur að líta ísmanninn Ötzi sem er elsta múmia Evrópu. Seinnihluta dags var farið með kláf upp í Sopra Bolzano sem er lítil sveit í hlíðum fjallanna og ægifagurt þar um að litast. Heimsóttum við m.a. býflugnabú og safn er því tengist og fengum fróðlegan fyrirlestur þar. Kórinn brast í söng í kláfnum á leiðinni uppeftir auk þess sem haldnir voru stuttir útitónleikar óvænt á litlu torgi. Lagði kórstjórinn derhúfu sína á torgið í von um smá ferðapening, ekki er vitað hversu mikið safnaðist en glöggir þóttust greina eilítið bros á vör söngstjórans er hann vitjaði pottloksins að söng loknum.
13 apríl. Mánudagur. Frjáls dagur og tónleikadagur. Hér var gefinn frjáls dagur fram til kl. 16. Margir nýttu þennan tíma til að versla all vægðarlaust og sumir réðu Ölla kórstjóra og Árna bassa í hlutastörf sem burðardýr þar sem þeir voru sendir heim á hótel með pinkla og poka og vinsamlegast beðnir um að koma fljótt aftur og sækja meira. Seinnipartinn var svo létt æfing með kórunum og svo sameiginlegir tónleikar klukkan 18. Kórinn okkar eða Kór Fsu hélt tónleika með Carducci kórnum sem er kór framhaldskólans Liceo Classico Carducci í Bolzano. Skemmtilegt samstarf og þökkum við þeim móttökurnar og eru þau velkomin í heimsókn til okkar hvenær sem er. Tónleikarnir voru haldnir í stórum sal skólans. Skemmst er frá því að segja að stappfullt var útúr dyrum og tónleikarnir tókust einstaklega vel. Kórarnir sungu í sitthvoru lagi síðan sameiginlega í lokin Dýravísur á íslensku og Va Pensiero á ítölsku. Gerður var góður rómur að söng kóranna og var Kór FSu lofaður í hástert enda áttu þau það fyllilega skilið, stóðu sig frábærlega. Fararstjórar okkar Jóna og Elli eða Jóna Fanney Svavarsdóttir og Erlendur Thor Elvarsson tóku svo lagið með okkur enda bæði sprenglærðir söngvarar og tónlistarfólk og slógu þau í gegn. Þau starfa bæði sem tónlistarfólk á Ítalíu og hafa rekið ferðaskrifstofu síðustu ár er þau kalla Cusina Travel eða Eldhúsferðir og sérhæfa sig í að skipuleggja ferðir fyrir kóra og annað tónlistarfólk. Þau eru alveg snillingar í þessu, afar skemmtilegt og vel skipulagt hjá þeim og yndisleg hjón í alla staði.
14. apríl. Þriðjudagur. Gardaland. Eftir þessum degi höfðu krakkarnir beðið lengi, því nú var haldið í hinn risastóra skemmti og tívolígarð Gardaland. Þarna var dvalið allan daginn og allskonar tæki prófuð allt frá saklausum klessubílum yfir í hrikleg tæki og nýjustu úfærslur af rússibönum og hvað þetta heitir alltsaman. Margir urðu grænir í framan og vesælir og var mikið að gera hjá Tótu og Kristjönu í að frakta fólk í aðhlynningartjaldið svo fólk næði kröftum sínum að nýju. Tóta gaf Ölla og Árna bassa frí þennan daginn en hún taldi of mikla áhættu fólgna í því að fara með svona fullorðna menn í skemmtigarð af þessari stærðargráðu, og voru þeir látnir ráfa um Bolzano á meðan. Allir voru alsælir eftir þennan dag og í algjöru rússi.
15 apríl miðvikudagur. Dagurinn tekinn snemma að venju. Nú var farið með rútu alla leið til Feneyja. Alveg einstök upplifun að koma þangað. Þar fékk hópurinn frjálsan tíma fram eftir degi og héldu þau öll hver í sína áttina, en allir komu glaðir í sinni á boðuðum tíma niður að bát. Rúllað tilbaka með rútunni sungið og sagðir brandarar.
16 apríl fimmtudagur. Brottfarardagur. Vaknað ævintýralega snemma og brunað til Munchen, þar sem Icelandair vélin beið okkar tilbúin að flytja okkur heim í íslenska vorið.
Öll kvöldin snæddum við saman á vönduðum veitingastöðum og var maturinn sérlega góður á Italíu og ítalir glaðlegir og vingjarnlegir.
Þessi ferð verður okkur öllum algjörlega ógleymanleg. Allt gekk eins og best verður á kosið. Kórinn frábær ,þau voru sjálfum sér aðstandendum sínum og skólanum til mikils sóma J Allt frábærir ferðafélagar og ekki má gleyma Tótu, Ölla , Kristjönu og Árna þau eru auðvitað bara öll snillingar J og veðrið var dásamlegt, sömuleiðis Elli og Jóna .Sömuleiðis viljum við þakka öllum styrktaraðilum innilega fyrir stuðninginn.
Á myndunum má sjá annars vegar kórinn undirbúa sig fyrir görusöng og hins vegar mynd af sameiginlegum tónleikum kóranna beggja, íslenska og ítalska.
Takk fyrir okkur
Stjórn Kórsins