JÖKLAR EINS OG ÍSPINNAR Í SÓLINNI
Fullyrða má að í námi nemenda hefur áhersla aukist á að örva skapandi hugsun á öllum skólastigum. Er það á pari við þá þróun sem orðið hefur í kennsluháttum og viðhorfum til náms á tímum upplýsingatækni í skólastarfi. Staðreyndabundna þekkingu er ekki eins mikilvægt að kenna og áður var. Nemendur sækja sér hana eftir margvíslegum leiðum á rafrænu formi. Þess vegna er í auknum mæli lögð áhersla á FÆRNI og HÆFNI til að vinna úr upplýsingum, túlka og skapa.
Nemendur í grunnnámi íslensku fyrsta þrepi hafa að undanförnu verið að lesa og ræða um söguna Fjallaverksmiðja Íslands eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Sagan segir frá sjö ungmennum sem láta sig afdrif jarðarinnar miklu skipta og gera eitt og annað til að forða henni frá þeirri vá sem að henni steðjar. Í tengslum við söguna vinna nemendur margs konar verkefni undir stjórn Guðbjargar Dóru Sverrisdóttur. Eitt verkefnanna er að semja ljóð sem á einhvern hátt er tengt náttúrunni. Ljóðið Heimurinn brennur er afrakstur af samvinnu þriggja nemenda. Þetta magnaða ljóð endurspeglar þá sýn sem þeir hafa á náttúruna í heimi okkar.
HEIMURINN BRENNUR
Hlýnun jarðar er ekki góð fyrir heiminn
jöklar bráðna eins og íspinnar í sólinni
á næstkomandi árum munu fjörur eyðast
og sjávardýr hverfa í djúpan dauðann
græðgi mannsins gleypir jörð
og börnin erfa ónýtt land
gamlir skarfar sofa rótt
og heimurinn brennur eins og sina.
jöz.