Jólaskreytingar komnar upp
Listskreytingatæknir FSu biður forláts vegna seinkunar á jólaskreytingum í skólanum þetta árið. Ástæðan er málningarvinna og nemendur byrjaðir í prófum. En viljugir jólasveinar, þeir Glugga-Ægir og Jóla-Helgi, voru svo vænir að hlaupa undir bagga. Jólagluggaskreytingarnar voru gerðar af myndlistarnemendum á vor- og haustönn árið 1998. Árni Erlingsson smíðakennari vildi fá jólaskreytingar í FSU og það var að hans undirlagi að þessar myndir urðu til. Uppsetning og frágangur mynda var líka eftir hans hugmyndum. Þema myndanna er í flestum tilfellum jólin og umgjörð þeirra en annars algjörlega á ábyrgð nemenda. Aðferðin er klippimyndatækni, litaður silki- eða kreppappír á svart karton. Ef listamennirnir eiga leið um svæðið geta þeir kannski komið auga á eigin verk.