KÁTÍNAN OG FÁRIÐ Í HVERSDEGINUM

KÁTIR DAGAR og FLÓAFÁR voru haldnir í síðustu viku febrúar í FSu og fyrstu viku marsmánaðar og tókust sérlega vel að þessu sinni. Skipulag var gott og sköpun enn betri enda mikið lagt í það af starfsfólki skólans og nemendum. Þátttaka var til sóma og mikið líf í gula húsinu við Tryggvagötu frá miðvikudegi til föstudags í síðustu viku.

Á Kátum dögum eru haldin fjölbreytt námskeið, kynningar og uppákomur um allan skólann en í Flóafári hópast nemendur saman í lið og keppa innbyrðis í alls konar námsgreinum – sem ekkert endilega eru kenndar við skólann. Þar ræður hugmyndaflug kennara mestu. Hvert lið fær sérstakt heimasvæði til að skreyta sem þau gerðu að þessu sinni af ótrúlegri hugmyndaauðgi. Í því sambandi var hnefaleikahringur búinn til í mötuneytinu úr fiskikörum og gryfjan í skólanum breyttist í neðanjarðarbyrgi glæpasamtaka. Síðan er keppt í þrautunum út um allt rými skólans í Odda og Hamri. Hugmyndaauðgi liðanna í útliti og skipulagningu heimasvæða var mikil að venju og fór keppnin vel fram. Fimm lið voru skráð til leiks að þessu sinni og fá þau nokkrar vikur til að undirbúa þema og skipuleggja sig. Að þessu sinni nefndust þau Hawai, Fight Club, íslenski herinn, Diskó, og Skúrkarnir. Mikil fjölbreytni og virkilega hörð keppni um sigurinn þar sem munaði minnsta mun.

En það sem upp úr stendur er breytingin eða umbyltingin sem verður á hefðbundnu skólastarfi. Og sú nauðsyn sem fylgir henni. Eins og um karníval sé að ræða þar sem öllu er snúið á haus og nemendur hlaupa um með fána og dansa í miðrýminu og hefðbundnir kennarar mæta klæddir eins og AC/DC, Ripp, Rapp og Rupp eða geimfarar NASA, gamlir bókverðir, persónur FROSEN, breskir hefðarmenn eða dönsku konungshjónin.

jöz