Kóngsins Köben
Nemendur í dönsku áfanga úr Fjölbrautaskóla Suðurlands fóru á dögunum í ferðalag til Kaupmannahafnar. Um var að ræða 32 nemendur ásamt þremur kennurum og stóð ferðin yfir í fimm daga.
Við, nemendurnir, skipulögðum ferðina algjörlega sjálfir frá byrjun til enda. Mikil vinna felst í slíku skipulagi þegar svona margir einstaklingar eiga að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Rituð var fundargerð og birt eftir hvern tíma. Við unnum undir forsendum algjörs lýðræðis, allir fengu að segja sína skoðun, við hlustuðum á rök hvers annars og þurftum oftar en ekki að skipta um skoðun þegar nýjar upplýsingar birtust okkur. Enginn einstaklingur var mikilvægari en einhver annar, ekki á meðan á skipulaginu stóð og ekki heldur í ferðinni. Margbreytileiki hópsins lét oft ljós sitt skína, stundum virtist langt í land með að ná sameiginlegum niðurstöðum en eitt er víst: Við gátum dregið mikinn lærdóm af.
COVID-19 hafði auðvitað áhrif á ferðina eins og svo margt annað. Faraldurinn var tiltölulega nýkominn til Íslands þegar við voru að leggja af stað í ferðina, og voru því skiljanlega einhverjir með efasemdir um hvort skynsamlegt væri að halda út enda stór snertiflötur í 35 manna hópi. Þó var tekin ákvörðun um að fara og einkenndu tíðir handþvottar og sprittlykt einkum ferðina. Allir héldu þó ró sinni úti og við létum þetta lítið á okkur fá enda Danir afar afslappaðir á meðan við vorum í borginni. Þess má þó geta að hótelið okkar lokaði einungis 10 dögum eftir að við fórum þaðan.
Þegar út var komið var ýmislegt gert og margir staðir skoðaðir, áttum meðal annars að rölta um í hverfinu okkar og finna gott bakarí, Rosenborg Slot og Kongens Have. Alla ferðina vorum við að taka myndir og myndskeið fyrir verkefni sem átti að vinna þegar heim var komið og daglega voru skemmtileg verkefni sem snerust um að taka myndir af sér með ýmsum kennileitum. Strax eftir komuna til Köben keyptum við öll okkar eigið "Rejsekort" og gátum því ferðast óhindrað með almenningssamgöngum þegar okkur datt það í hug enda var eitt af verkefnum ferðarinnar að þjálfast í að komast og rata um allt upp á eigin spýtur. Hostelið okkar var rétt hjá Kongens Nytorv og þaðan tengdi glænýja metrólínan, sem tekin var í notkun 2019, okkur afar vel við alla miðborgina.
Föstudagurinn var tekinn snemma og fór hópurinn í lestarferð til Gerlev Idræthøjskole sem er rétt hjá Slagelse. Þar fengum við að skoða skólann hátt og lágt og kynnast lífinu í íþróttalýðháskóla. Þegar heim var komið vörðum við tímanum ýmist í að versla, ferðast um borgina og skoða kennileiti eða einfaldlega að njóta. Ákveðnir nemendur úr hópnum tóku manntal á kvöldin og þess má geta að haldnir voru umræðufundir daglega þar sem lagt var mat á fyrirfram útbúið skipulag og ákvarðanir um breytingar teknar.
Á laugardaginn skoðuðum við Nyhavn og löbbuðum yfir til Christianiu sem er fríríki innan Danmerkur og fundu margir fyrir miklu menningarsjokki við að koma þangað. Næst var ferðinni heitið á Carlsbergs Glyptotek sem er stórt safn í hjarta Kaupmannahafnar. Safnið inniheldur ýmsa listmuni frá margskonar menningarheimum og löndum. Mjög menningarleg heimsókn enda margir flottir munir á safninu. Seinnipartinn var síðan frjáls tími, allir þurftu þá að rata heim sem við og gerðum.
Við höfðum skipulagt frjálsan tíma á sunnudeginum og viðfangsefnin voru fjölbreytt og mismunandi: Einhverjir skoðuðu Litlu hafmeyjuna og Amalienborg, heimili drottningarinnar, aðrir tóku lest og fóru í verslunarmiðstöð á meðan enn aðrir fóru á söfn eða útsýnisstaði. Um kvöldið fór svo allur hópurinn saman út að borða.
Mánudagurinn var heimferðardagur og hópurinn naut síðustu stundanna saman í Köben en þó voru allir spenntir að komast heim til Íslands.
Við tókum öll ýmislegt með okkur úr þessari ferð, sem var bæði skemmtileg og gefandi á ýmsu vegu. Margir hafa nefnt hversu veraldarvanir þeir eru orðnir og einn af kennurunum, Sverrir Geir sagði með bros á vör að hann taldi sig orðið rata betur þar en í Reykjavík. Þetta var dásamleg ferð í alla staði og skemmtu sér allir konunglega í kóngsins Köben.