KÖRFUBOLTAHETJUR Í FSu
Sameiginlegt kvennalið Hamars í Hveragerði og Þórs í Þorlákshöfn tryggði sér sigur í 1. deild körfuboltans þriðjudagskvöldið 2. apríl síðastliðinn og þar með sæti í úrvalsdeild. Þær unnu Ármann í Laugardalshöll með 82 stigum gegn 72 og toppuðu um leið kvennaliði KR og Aþenu sem áttu sömu möguleika á að vinna deildina. Ellefu skráðir leikmenn liðsins stunda nám í FSu en það er: Anna Katrín Víðisdóttir, Diljá Ólafsdóttir, Elín Þórdís Pálsdóttir, Emma Hrönn Hákonardóttir, Eva Margrét Þráinsdóttir, Gígja Rut Gautadóttir, Helga María Janusdóttir, Hildur Gunnsteinsdóttir, Jóhanna Ágústsdóttir, Valdís Una Guðmannsdóttir og Þóra Auðunsdóttir. Sannkallaðar afrekskonur í FSu.
Hákon Hjartarson er þjálfari liðsins og í samtali við Sunnlenska.is segir hann glaður í bragði að „keppnin í vetur hafi verið rosaleg en eftir tap gegn Aþenu í janúar fylgdu ellefu sigrar í röð. Ég er hrikalega glaður að fá lið af Suðurlandi aftur í úrvalsdeildina. Þessar stelpur eru búnar að spila lengi saman og það er stórt skref að fara í úrvalsdeild. Þær þurfa nýja áskorun og eru komnar á þann stað að geta spilað í deild þeirra bestu.”
Átta ár eru síðan Hamar lék í úrvalsdeild og verður næsta tímabil það fyrsta á ferli sameinaðs liðs Ölfus bæjarfélaganna í úrvalsdeild. Í fimmtán manna æfinga hópi liðsins eru tólf af Suðurlandi og ellefu af þeim stunda nám í FSu. Sannkallaðar körfuboltahetjur og heiðurskonur.
jöz.